Jákvæð líkamsmynd er mikilvæg fyrir hamingju og velferð barna. Rannsóknir hafa á undanförnum árum leitt sífellt betur í ljós hve mikla þýðingu líkamsmynd barna og ungmenna hefur fyrir andlega og líkamlega heilsu þeirra. Neikvæð líkamsmynd eykur áhættu á slæmri sjálfsmynd, þunglyndi og átröskunum meðal ungs fólks ásamt því að auka líkur á að þau temji sér óheilbrigðar lífsvenjur. Rannsóknir hafa til að mynda sýnt að stúlkur sem eru ósáttar við líkama sinn eru líklegri til að byrja að reykja en aðrar. Einnig hafa langtímarannsóknir sýnt að unglingar sem eru ósáttir við líkama sinn―óháð raunverulegri líkamsstærð―hreyfa sig minna og hafa þyngst meira fimm árum síðar. Það að upplifa skömm og vanlíðan gagnvart eigin líkama dregur úr hvatningu til að hugsa vel um hann.
Líkamsmyndin er hluti af sjálfsmynd okkar og því skiptir máli að hlúa vel að þessum þætti í æsku. Mörg umhverfisáreiti í nútímasamfélagi vega beinlínis að líkamsmynd barna og unglinga og mikilvægt að umhverfi þeirra heima fyrir og í skólanum veiti mótvægi við slíkum áherslum. Börn læra að vera ósátt við líkama sinn eða dómhörð í garð annarra vegna þess að þau búa í samfélagi þar sem grannur vöxtur er lofaður en feitur lastaður. Í samfélögum þar sem útlitsviðmið eru afslappaðri er tíðni slæmrar líkamsmyndar og átraskana mun lægri en á okkar slóðum. Þessi viðhorf eru því hvorki meðfædd né meitluð í stein. Þau eru lærð rétt eins og önnur samfélagsviðhorf. Okkar ábyrgð felst í því að veita börnum mótvægi við þeim staðalmyndum sem ríkja í umhverfi þeirra og kenna þeim að umgangast eigin líkama og annarra af virðingu. Þetta er það sem felst í orðinu „líkamsvirðing“.
Í þessu felst áskorun fyrir okkur fullorðna fólkið. Við vorum flest alin upp við það fjölbreytileiki holdafars var ekki virtur og flest okkar hafa tileinkað sér þá skoðun fyrir langa löngu að best sé að vera grannur en það sé neikvætt að vera feitur. Við þurfum að endurskoða þessar hugmyndir ef við ætlum að hjálpa börnum að öðlast önnur lífsgildi en þau sem við lærðum sjálf. Kannski hafa þessar hugmyndir skaðað þína eigin líkamsmynd, kæri lesandi. Kannski hafa þær valdið þér vanlíðan, óöryggi og skömm gagnvart líkama þínum. Hugsaðu þér þá ef þú fengir tækifæri til að snúa til baka. Hvað ef umhverfi þitt hefði stutt þig til þess að þykja vænt um líkama þinn og kennt þér að umgangast hann af virðingu og umhyggju?
Nú býðst slíkt tækifæri fyrir næstu kynslóð barna.
Hér á eftir eru nokkur góð ráð til þess að efla líkamsmynd barna:
1. Allir eru öðruvísi
Kenndu barninu þínu að fjölbreytileiki í líkamsvexti sé eðlilegur. Alveg eins og við erum mismunandi á litinn, höfum ólíkt andlitsfall, hárlit og augnlit, þá erum við líka mismunandi í laginu. Þetta er sjálfsögð staðreynd sem allir ættu að virða.
2. Útrýmum fordómum
Kenndu barninu þínu að það sé ekki rétt að stríða eða tala illa um aðra vegna þess hvernig þeir líta út. Fordómar vegna holdafars og útlits eru alveg jafn slæmir og skaðlegir og aðrir fordómar. Ef við verðum vör við slíka fordóma þá ber okkur að bregðast við.
3. Elskaðu líkama þinn
Talaðu jákvætt um líkama þinn og hugsaðu vel um hann. Aldrei tala illa um vaxtarlag þitt svo barnið þitt heyri. Lærðu að þykja vænt um líkama þinn þótt hann sé ekki fullkominn og þannig lærir barnið að bera virðingu fyrir sínum líkama.
4. Eflum gagnrýna hugsun
Fræddu barnið um óraunhæf útlitsviðmið í samfélaginu og hvernig þau birtast, t.d. í fjölmiðlum, barnaefni og leikföngum. Storkaðu fordómum vegna holdafars hvenær sem þú rekst á þá og skapaðu andrúmsloft mannúðar og virðingar fyrir öllu fólki.
5. Kenndu barninu þínu að líkami þess sé góður líkami
Líkamsmyndin er hluti af sjálfsmynd okkar. Kenndu barninu þínu að vera stolt af sínum sérkennum. Aldrei segja neitt neikvætt um líkama barnsins þíns og taktu hart á því ef einhver annar gerir það. Samband barnsins við líkama sinn er dýrmætt.
6. Hlustaðu á barnið þitt
Ef barnið lýsir áhyggjum af líkamsvexti sínum er mikilvægt að hlusta. Reyndu að komast að því hvað býr þarna að baki. Varð barnið fyrir neikvæðri reynslu nýlega? Hefur það séð eða heyrt eitthvað sem fékk það til að skammast sín fyrir líkama sinn? Sýndu stuðning og ekki líta svo á að holdafari barnsins sé um að kenna. Ef barnið hefur orðið fyrir höfnun vegna þess hvernig það lítur út þá er vandamálið í umhverfinu, ekki hjá barninu.
7. Hegðun en ekki holdafar
Ef þú hefur áhyggjur af lífsvenjum barnsins þíns skaltu beina sjónum að hegðun þess en ekki holdafari. Skapaðu umhverfi þar sem barnið fær næg tækifæri til að borða hollan mat og hreyfa sig sér til ánægju. Hvorki þú né barnið ættuð hins vegar að líta á heilbrigðar lífsvenjur sem grenningaraðferð, heldur eitthvað sem allir þurfa að gera til þess að halda heilsu og líða vel. Það skiptir mestu að upplifun barnsins verði jákvæð þannig að það hafi áhuga á að lifa heilbrigðu lífi til langframa.
Að endingu er vert að benda á vefsíðuna sjálfsmynd.com en þar er að finna efni og hugmyndir að verkefnum fyrir grunnskóla um hvernig má styðja við jákvæða líkamsmynd og sjálfsmynd barna.