Umhyggja

Börn eru náttúrulega forvitin um líkama sinn og það er gott að nýta þessa forvitni til þess að kenna þeim að treysta líkama sínum, finna fyrir honum og vita að þau eiga hann sjálf. Þarna eiga þau eftir að búa alla ævi og það er mikilvægt að þeim líði vel þar. Börnin verða líka seinna ábyrg fyrir allri umönnun líkamans og þeim þarf að finnast hún sjálfsagður hluti af tilverunnni ef vel á að fara. Ég hef stundum notað samlíkingu við pottablóm eða gæludýr þegar ég útskýri fyrir börnunum mínum af hverju það er mikilvægt að tannbursta sig eða borða grænmeti. Ef þau eignuðust hvolp þætti þeim sjálfsagt að læra um hverskonar fæði hentaði honum, hvernig ætti að snyrta feldinn og hve oft hann þyrfti að fara út í göngutúr til að honum liði sem best. Jæja. Líkaminn er líka lifandi vera og hann hefur þarfir sem við þurfum að sinna. Ef við gerum það ekki þá veikist hann. Þegar börn heyra þetta skilja þau betur að það er ástæða fyrir því að þau þurfa að fara snemma að sofa eða út að leika sér. Líkaminn þarfnast umhyggju.

Hlutverk okkar sem uppalenda, er að reyna að skapa jákvæð viðhorf gagnvart þessari umhyggju meðal barnanna okkar. Það gerum við auðvitað fyrst og fremst með því að ýta undir jákvæðar tilfinningar barnsins til líkama síns, en einnig með því að beina athygli þeirra að því hvað þeim líður vel þegar vel er hugsað um líkama þeirra. Okkur líður betur þegar við erum vel nærð og úthvíld heldur en þegar við erum þreytt og svöng. Og það er ekki til sú mannvera sem ekki hressist af því að hreyfa sig og leika úti í fersku lofti. Það er þessi tilfinning sem við ættum að reyna að minna börnin á að taka eftir og nýta sem hvatningu fyrir því að hugsa vel um líkamann: Þá líður okkur svo vel. Við þurfum að passa að gera það ekki að leiðinlegri kvöð að hlúa að líkamanum og alls ekki tala um mataræði eða hreyfingu sem aðferðir til að stjórna líkamsvexti. Matur og hreyfing eiga að vera hrein uppspretta ánægju og vellíðanar í lífum barna.

Til þess að stuðla að umhyggju barnanna minna gagnvart líkama sínum hef ég alltaf talað eins og það sé sjálfsagðasti hlutur í heimi að sinna líkama sínum. Bara eins og að vökva blómin eða gefa kisu að borða. Ég reyni frekar að fá þau til að ganga eða hjóla ef við erum að fara eitthvað í nágrenninu og tala um hvað þau eigi gott að eiga sterka fætur sem geti borið þau hvert sem þau vilja. Ég hef þannig reynt að innræta börnunum mínum að það sé jafn sjálfsagt að ganga í skólann og hreyfa sig á hverjum degi eins og að borða morgunmat og tannbursta sig á kvöldin. Hreyfing er svo mikilvæg fyrir börn með tilliti til alls þroska, vaxtar, styrkingu beina og vöðva, andlegrar líðanar og félagslegra samskipta. Það er mikil synd að það hafi nánast lagst af hér á landi að börn fari út að leika sér. Fyrir aðeins nokkrum áratugum iðuðu göturnar af lífi, hópar barna gengu til og frá skóla á hverjum degi, og síðdegis mátti heyra hlaup og hlátrasköll út um allt. Nú eru hverfin þögnuð og umferðaröngþveiti myndast á hverjum morgni við grunnskólana þar sem foreldrar eru að skutla börnunum í skólann. Af einhverjum ástæðum hefur sú hugmynd náð að skjóta rótum að það sé grimmdarlegt að láta börn ganga í skólann en í raun er það besta byrjun á degi sem hægt er að gefa þeim. Þau mæta mun sprækari í skólann eftir að hafa farið aðeins út í ferskt loft og hreyft sig í smástund. Sem sálfræðingur hef ég tilhneigingu til að líta á hreyfingu fyrst og fremst sem geðrækt enda höfum við í dag fengið staðfestingu vísindanna á því sem við höfum flest upplifað á eigin skinni: Að hreyfing bætir, hressir og kætir. Regluleg hreyfing hefur mikil og jákvæð áhrif á andlega líðan og ber jafnvel árangur sem meðferð við þunglyndi! Það að tryggja börnum næga hreyfingu á hverjum degi ætti því að vera jafn sjálfsagt og að gefa þeim nóg að borða og passa að þau fái nægan svefn.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s