Sigrún Daníelsdóttir er sálfræðingur og þriggja barna móðir. Hún hefur sérhæft sig í forvörnum og meðferð slæmrar líkamsmyndar og átraskana auk þess að sinna rannsóknarstörfum á sviði fitufordóma. Hún hefur sinnt gestakennslu við Háskólann á Akureyri, Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands og leiðbeint fjölda nemenda við sálfræði-, félagsfræði- og félagsráðgjafadeild við lokaverkefni sín við sama háskóla. Í bráðum áratug hefur Sigrún staðið fyrir samfélagsbaráttu á sviði líkamsvirðingar og skipulagt árlega viðburði í tengslum við Megrunarlausa daginn. Árið 2009 stofnaði hún líkamsvirðingarbloggið á Eyjunni, sem í dag telur sex sjálfstæða höfunda, og árið 2012 voru Samtök um líkamsvirðingu stofnuð. Sigrún er formaður samtakanna sem og Félags fagfólks um átraskanir. Hún hefur til margra ára boðið upp á vinsæl fræðsluerindi fyrir skóla, foreldrafélög, félagasamtök og fyrirtæki um líkamsvirðingu, líkamsmynd, heilbrigt samband barna við mat og tengd málefni. Kroppurinn er kraftaverk er hennar fyrsta bók.
Hægt er að hafa samband við Sigrúnu í netfangið sigrun.daniels@gmail.com.
Björk Bjarkadóttir myndskreytti bókina Kroppurinn er kraftaverk. Hún býr í Osló þar sem hún vinnur sjálfstætt sem barnabókahöfundur, myndskreytari, grafískur hönnuður, ljósmyndari og listakona. Hún hefur skrifað og myndskreytt fjölda bóka sem gefnar hafa verið út á fjölda tungumála, svo sem Súperömmu-bækurnar, Grallarar í gleðileit, Komdu höldum veislu!, Mamma er best og Elsku besti pabbi. Einnig myndskreytti hún bókina Skrímslið litla systir mín eftir Helgu Arnalds sem byggir á samnefndri leiksýningu sem hlaut leiklistarverðlaunin GRÍMUNA sem best barnasýningin árið 2012.
Björk hlaut árið 2006 Dimmalimm – íslensku myndskreytiverðlaunin fyrir bókina Amma fer í sumarfrí. Það ár hlaut hún einnig vorvindaviðurkenningu IBBY fyrir framlag sitt til barnabókmennta.
Heimasíða Bjarkar er: www.bjorkbjarka.no