Líkamsvitund

Að mynda tengsl er forsenda ástar og væntumþykju. Það á við um líkamann okkar rétt eins og aðrar manneskjur. Til þess að börn geti lært að elska líkama sinn og líða þar vel þurfa þau fyrst að fá að tengjast líkama sínum, hlusta á hann, læra inn á hann og þekkja hann á eigin forsendum.

Því miður er margt í hefðbundnu uppeldi sem truflar tengsl barns við líkama sinn. Við fullorðna fólkið eigum það til að virða ekki nógu vel mörk barna hvað varðar þeirra eigin líkama og kenndir. Okkur hættir til að festast í því að stjórna. Vissulega er það hlutverk okkar að gæta barna og bera ábyrgð á þeim. En við megum ekki gleyma því að markmiðið er alltaf að barnið læri að stjórna sjálft – og til þess þurfa þau að æfa sig.

Til þess að börn geti lært hvernig líkami þeirra virkar þurfa þau að æfa sig í því að finna fyrir merkjunum sem hann sendir frá sér og hvernig þau eiga að bregðast við. Almennt eru ung börn í frekar góðum tengslum við líkama sinn. Þau eru ekki enn búin að læra að harka af sér ef þau meiða sig, halda aftur af sér ef þau eru svöng eða halda sér vakandi ef þau eru þreytt. Önnur merki þarf hins vegar að læra, eins og hvaða líkamlegu kenndir gefa til kynna að við þurfum að kasta af okkur vatni og hvað eigi þá að taka til bragðs. Alltaf gildir samt sú staðreynd að börn þurfa svigrúm til að átta sig á eigin kenndum og umhverfið getur ekki sagt þeim hvernig þeim líður. Það hjálpar ekki barni að læra inn á eigin kenndir að einhver annar segi “nú þarft þú að fara á klósettið”. Við gerum þetta kannski á ákveðnum tímum, ef aðgangur að klósetti verður takmarkaður á næstunni, eins og þegar við förum í bíltúr eða út að leika, en það að treysta á alfarið ytri skilaboð getur samt ekki verið meginreglan í klósettþjálfun barna. Það geta allir farið á klósettið samkvæmt skipun en listin felst í því að átta sig á því hvenær þinn eigin líkami gefur merki um að þurfa að pissa. Þetta geta börn ekki lært öðruvísi en að beina athyglinni inn á við.

Það sama gildir um mat. Börn venjast ekki við að fylgja eigin magamáli ef þeim er stöðugt sagt hvenær á að byrja og hætta að borða. Börn fæðast með sterk tengsl við merki líkamans um hungur og saðningu þannig að þessi merki þarf ekki að kenna þeim, aðeins að styðja þau í að viðhalda þeim. Því miður verður þróunin oft á hinn veginn, þar sem foreldrar og kennarar, ömmur og afar, þjálfa barnið óviljandi í því að hunsa þessi merki. Þetta er t.d. gert með því að moka í það mat með því að leika flugvél þegar barnið segist ekki vilja meira, veita verðlaun fyrir að klára matinn sinn eða jafnvel nota hótanir eða skammir. Með þessum hætti er börnum kennt að láta ytri áreiti stýra matarvenjum sínum frekar en innri. Þetta er ekki heppilegt veganesti í umhverfi nútímans þar sem allt úir og grúir af þversagnarkenndum skilaboðum um mat. Barn sem hefur misst tengslin við eigin matarlyst er berskjaldað fyrir öllum þessum skilaboðum sem ýmist hvetja okkur til að borða of lítið (fara í megrun) eða of mikið (klára risaskammta á matsölustöðum). Í umhverfi eins og okkar er erfitt að viðhalda heilbrigðu sambandi við mat ef maður hefur tapað sínum innri áttavita .

Það að við séum ekki að stjórna matarinntöku barna með kröfum, skömmum, mútum eða dekstri þýðir ekki að við séum óvirk þegar kemur að mataræði þeirra. Ég hef reynt að styðjast við kerfi í uppeldi barnanna minna sem er komið frá bandaríska næringarfræðingnum Ellyn Satter og byggist á skiptingu ábyrgðar. Þetta kerfi finnst mér skynsamlegt þar sem það tilgreinir hvar ábyrgð okkar sem foreldra eða umönnunaraðila barna liggur og hvar við þurfum að læra að sleppa. Í stuttu máli þá skiptist ábyrgðin svona:

  • Fullorðnir bera ábyrgð á skipulagninu matmálstíma og ákvörðunum um hvað, hvenær og hvar skuli borða. Þeir ákveða hvort það eigi að vera fiskur eða pítsa í matinn, hvort matmálstímar séu reglulegir eða ekki og hvort það eigi að borða fyrir framan sjónvarpið eða við eldhúsborðið.
  • Börnin hins vegar, ráða því hvort þau borða og hversu mikið af því sem er í boði í hvert sinn. Enginn annar en þau getur vitað um stöðu mála í þeirra eigin maga svo þessum hluta verðum við að treysta þeim fyrir.

Við getum minnt þau á að hlusta á líkamann og læra að skilja boðin sem hann sendir þeim, en hlutverk okkar er ekki að taka fram fyrir hendurnar á þeim til að koma í veg fyrir að þau geri mistök. Börn læra af reynslunni sem þýðir að þau verða að fá að gera mistök. Okkar hlutverk er að hjálpa þeim að viðhalda sínum eðlislægu tengslum við líkamann og hvetja þau til að líta inn á við eftir leiðsögn. Í stað þess að segja “Borðaðu þrjá bita í viðbót” þegar barnið segist ekki vilja meira, bendum við því á að líta inn á við og finna hvernig því líður. Ef það kemur síðan í ljós að barnið var alls ekki orðið mett og biður um mat stuttu eftir að matartímanum lýkur má líta á það sem lærdómstækifæri. Ef matmálstímar eru reglulegir gerir það barninu ekkert illt að þurfa að bíða eftir næstu máltíð. Næst þegar barnið ætlar að hlaupa frá borðum eftir að hafa varla borðað nokkuð er hægt að minna það á hvað gerðist síðast og hvetja það til að leggja vel við hlustir og kanna stöðuna á maganum.

Ef um er að ræða kvöldmat vandast samt málið. Margir foreldrar kannast við að barn, sem vill ekkert borða í kvöldmat, segist svo vera svangt þegar komið er upp í rúm. Hér hef ég notað sveigjanlegri aðferð. Ef börnin mín borða ekki kvöldmatinn þá geymi ég matinn þeirra og býðst til að hita hann upp ef þau segjast vera svöng þegar líður á kvöldið. Ég leyfi þeim ekki að fá sér kex í staðinn fyrir kvöldmat en það er mikilvægt að refsa börnum ekki heldur fyrir að hlusta á eigin líkama. Ef þau eru hins vegar búin að bursta tennurnar og komin upp í rúm þá segi ég að matartíminn sé því miður liðinn og nú sé kominn háttatími. Með endurtekinni þjálfun læra börnin svo að skynja hverskonar líðan það er að vera saddur og svangur og hvað þessi merki þýða. Það er gott að minna börn oft á það að líkaminn sé lifandi vera sem sé stöðugt að gefa þeim merki um það sem hann þarf. Þessum merkjum er okkur óhætt að treysta.

Þetta er ekki alltaf auðvelt og það getur tekið á taugarnar að gefa börnum að borða. Mín reynsla er hins vegar sú að það slakar mikið á togstreitunni við matarborðið þegar fullorðnir hætta að reyna að stjórna því sem er í raun ekki þeirra að stjórna. Það hvenær barn þarf að pissa, er illt í fætinum, er þreytt eða svangt, er ekki undir foreldrinu komið heldur barninu. Foreldrið getur ekki vitað um þessar kenndir heldur þarf að læra að treysta barninu. Það kann ekki góðri lukku að stýra að fullorðna fólkið reyni að ráðskast með þessar kenndir. Það mun aðeins trufla tengsl barnsins við sjálft sig og kenna því að treysta ekki á merkin sem líkami þess gefur.

 

Hér má lesa meira um heilbrigt matarumhverfi barna og heilbrigt samband við mat.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s