Kroppurinn er kraftaverk

kroppurinn er kraftaverk.indd

Kroppurinn er kraftaverk er fallega myndskreytt bók fyrir 3ja til 7 ára börn um það undraverk sem líkami þeirra er. Markmiðið er að efla jákvæða líkamsmynd barna, líkamsvitund, umhyggju og væntumþykju gagnvart eigin líkama á þeirri forsendu að við hugsum betur um það sem okkur þykir vænt um. Einnig að stuðla að virðingu þeirra fyrir fjölbreytileika til að ýta undir jákvæð samskipti og vinna gegn stríðni og einelti. Bókin veitir uppalendum og umsjónaraðilum barna einfalda forskrift að því hvernig hægt er að ræða um þessa hluti við börn og styrkja þau til þess að lifa í sátt við sig sjálf og aðra.

Á þessari vefsíðu er að finna frekari fróðleik og upplýsingar í sambandi við bókina og líkamsvirðingu almennt. Bókin hefur að geyma fjögur grundvallaratriði í tengslum við líkamsvirðingu: Líkamsvitund, umhyggju fyrir líkamanum, væntumþykju í hans garð og virðingu fyrir fjölbreytileika. Vefsíðan er byggð upp á sama hátt og er hvert þessara atriða tekið til nánari umfjöllunar.

Ég hvet alla þá sem lesa þessa bók með börnum að nota hana sem tæki til að vekja umhugsun og umræður. Textinn er stuttur og einfaldur en hann er hugsaður þannig að hægt sé að staldra við og ræða við börnin um það sem kemur fyrir. Umfram allt að beina athygli barnanna inn á við og hjálpa þeim að tengja atriði bókarinnar við sjálf sig. Spyrja þau spurninga:

  • Hvernig er þinn líkami skemmtilegur?
  • Hvað getur líkami þinn gert?
  • Hvenær líður þér vel í líkamanum þínum?
  • Geturðu fundið fyrir eyrunum þínum án þess að snerta þau?

Sömuleiðis að fá þau til að skynja fjölbreytileika líkamsvaxtar og útlits. Bara með því að horfa í kringum sig sjá þau hvernig allir líkamar eru ólíkir. Þessi fjölbreytni er skemmtilegur og sjálfsagður hluti af tilverunni. Hjálpa þeim að sjá samsvörunina í náttúrunni, engin tvö laufblöð, tré eða steinar eru alveg eins. Aðeins hlutir sem eru búnir til geta verið nákvæmlega eins, eins og bílar, leikföng eða bækur.

Meginmarkmið uppeldis og kennslu í leikskólum eru m.a. að hlúa að börnum andlega, vitsmunalega og líkamlega í samræmi við þarfir hvers og eins og stuðla að víðsýni og siðferðisvitund þeirra. Í aðalnámsskrá grunnskóla er sömuleiðis lögð áhersla á  sjálfsvitund, siðgæðisvitund og félagsvitund nemenda, sem og líkamlega og andlega velferð þeirra. Heilbrigði og velferð komu nýlega inn sem einn af sex grunnþáttum í aðalnámsskrá grunnskóla sem kallar á aukið framboð námsefnis sem snýr að þessum þætti. Það er von mín að Kroppurinn er kraftaverk komi til með að nýtast vel í starfi með börnum a leik- og grunnskólaaldri. Fram til þessa hefur ekkert námsefni verið til á íslensku sem vinnur beint að eflingu líkamsmyndar, líkamsvitundar og líkamsvirðingar barna. Nýnæmi þessarar bókar er því mikið og mun hún vonandi verða velkomin viðbót í verkfærakistu leik- og grunnskólakennara – sem og foreldra og annarra uppalenda barna.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s