Fjölbreytileiki

Fjölbreytileiki einkennir alla mannlega tilveru svo hvers vegna skyldi hann ekki ríkja á sviði útlits og líkamsvaxtar? Í dag hafa heilsufars- og útlitsáherslur leitt okkur að þeirri hugmynd að allir ættu að vera grannir. En allir þeir sem hafa komið að uppeldi barna vita að það er allskostar óraunhæft. Börn eru eins mismunandi og þau eru mörg og þau koma í heiminn með sína sérstöðu hvað sem tautar og raular. Sum börn eru einfaldlega stór frá náttúrunnar hendi og önnur smá. Við munum aldrei afmá þennan fjölbreytileika og umhyggja fyrir heilsu og velferð barna ætti ekki að miðast að því. Miklu heldur ætti umhverfið að leggja áherslu á að efla jákvætt samband barns við líkama sinn þannig að öll börn vaxi úr grasi með jákvæða líkamsmynd og beri sanna umhyggju fyrir sjálfu sér. Til þess þurfa líkamar þeirra að mæta samþykki frá öðrum. Stríðni og aðkast vegna útlits eða holdafars eru algengt form eineltis og því er mikilvægt að efla virðingu fyrir fjölbreytileika líkamsvaxtar meðal barna. Það mun skila sér í samfélagi sem stendur fastar á mannréttindahugsjóninni―að við séum öll jafn mikilvæg þó við séum mismunandi. Í skólanum stuðlar þessi hugsun að jákvæðari skólabrag þar sem öll börn geta verið örugg í sjálfum sér og liðið vel.

Snemma á leikskólaaldri fara börn að tileinka sér ríkjandi hugmyndir í samfélaginu hvað varðar ákveðna hópa og félagslega stöðu þeirra, t.d. hvað það þýðir að vera strákur og hvað það þýðir að vera stelpa í okkar samfélagi. Á sama hátt læra þau hvað það þýðir að vera feitur og grannur. Samkvæmt félags- og menningarlegum kenningum um slæma líkamsmynd og fordóma varðandi holdafar læra börn að vera ósátt við líkama sinn, eða dómhörð í garð annarra vegna holdafars þeirra, vegna þess að þau búa í samfélagi þar sem grannur vöxtur er lofaður en feitur litinn hornauga. Því þarf að veita börnum mótvægi við þeim staðalmyndum sem þau læra  ósjálfrátt við það eitt að lifa í samfélaginu.

Til þess að efla virðingu barna fyrir fjölbreytileika holdafars, rétt eins og annarra mannlegra eiginleika, þarf að huga vel að því hvernig við tölum um þessa hluti. Ef við tölum neikvætt um eina tegund líkamsvaxtar en jákvætt um aðra munu börnin læra að mismuna eftir líkamsvexti. Til þess að efla líkamsvirðingu meðal barna þurfum við því að læra að tala fallega um alla líkama, stóra, litla, feita, mjóa, unga og gamla. Allir líkamar eru undraverk og eiga virðingu skilda. Við þurfum að kenna börnum að fjölbreytileiki á sviði holdafars og útlits sé sjálfsagður, eðlilegur og skemmtilegur. Við erum ekki öll eins og eigum ekki að vera það. Ef við tölum um þennan fjölbreytileika sem eðlilegan og jákvæðan hlut þá læra börnin að líta hann jákvæðum augum. Og ef þau læra það, þá eru neikvæð líkamsmynd og fordómar vegna holdafars úr sögunni!

Eitt af því sem ég heyri stundum þegar ég tala um líkamsvirðingu fyrir börn er að það sé skaðlegt að kenna börnum að það sé í lagi að vera feitur. Sumum finnst það ábyrgðarhluti að kenna börnum að það sé slæmt að vera feitur af því það muni hjálpa þeim að vera heilbrigð. Þessi hugsun er skiljanleg í ljósi allrar þeirrar umræðu sem farið hefur fram um offitu á undanförnum árum. En það er ekkert sem bendir til þess að jákvætt viðhorf til líkamans stuðli að óheilbrigði, hvorki meðal grannra né feitra. Þvert á móti sýna langtímarannsóknir að ungmenni sem hafa jákvæða líkamsmynd―óháð líkamsvexti―eru líklegri til að tileinka sér heilbrigðar lífsvenjur en þau sem eru óánægð með líkama sinn. Rannsóknir hafa einnig sýnt að feitir krakkar sem eru sáttir í eigin skinni þyngjast minna með árunum en þau sem eru óánægð með líkama sinn. Jákvæð líkamsmynd hefur verndandi áhrif á heilsu og velferð.

Það er ýmislegt sem foreldrar, kennarar, afar, ömmur og aðrir sem umgangast lítil börn geta gert til þess að skapa börnum líf sem einkennist af líkamsvirðingu. Bókin Kroppurinn er kraftaverk er einmitt hugsuð sem sérstakt verkfæri til þess. Þeir sem lesa bókina með börnum eru því hvattir til að staldra við efni blaðsíðanna og ræða við börnin um það sem fram kemur eða stinga upp á að þau vinni áfram með efnið. Þegar rætt er um margbreytileikann mætti til dæmis stinga upp á því að þau teikni sjálf sig með þeim útlitseinkennum sem þeim finnst einkenna sig. Ef þau teikna bara einfalda mynd án allra sérkenna mætti hjálpa þeim að koma sérkennum sínum betur fyrir með því að koma með uppástungur: „En hvað með freknurnar þínar, hvar eru þær?“ eða „Ertu nokkuð að gleyma krullaða hárinu þínu?“ Eins mætti hvetja börn til þess að teikna fjölskylduna sína: Pabba og mömmur, afa og ömmur, systkini og jafnvel frænkur og frændur. Hjálpið barninu að sjá hvernig þetta fólk er allt ólíkt, sumir eru hávaxnari en aðrir, sumir eru með meira hár en aðrir, sumir með grátt hár og sumir með skegg, gleraugu eða eitthvað annað sem einkennir útlit þeirra. Hér skiptir miklu máli að fullorðnir gæti hlutleysis síns og miðli því ekki til barnsins að ein útlitseinkenni séu neikvæðari en önnur. Þau eru bara eins og þau eru. Barnið lítur ekki svo á að það sé neikvæðara að vera með lítið hár en mikið, eða neikvæðara að vera feitur en mjór, nema við kennum þeim það.

Einnig er mikilvægt að vera vakandi fyrir fitufordómum og megrunartali í barnaefni. Mín reynsla sem foreldri er að það er nánast leitun að efni sem inniheldur engin slík skilaboð. Við þurfum því að vera vakandi fyrir því sem börnin okkar horfa á og vera dugleg við að láta í okkur heyra þegar við sjáum að fordómar eru boðnir á borð fyrir börnin okkar í formi skemmtiefnis. Það er ekkert eðlilegt við að börnum sé kennt að hlæja að fitubollum og innrætt sú skoðun að feitt fólk sé kjánalegt, frekar en að þeim sé kennt að líta á aðra hópa með þeim hætti. Við þurfum að verða betur meðvituð um skilaboðin sem fylgja þegar afþreying og leikföng eru valin handa börnum. Best er í raun að þau eyði sem minnstum tíma fyrir framan tölvu eða sjónvarp. Það verndar þau bæði fyrir neikvæðum áhrifum kyrrsetunnar og þeim útlitsskilaboðum sem bíða þeirra í fjölmiðlaefni.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s